Beint í efni

Brunahætta í eldri timburhúsum

Árið 1998 tók ný byggingarreglugerð gildi fyrir mannvirki, þar voru gerðar auknar kröfur um brunavarnir. Timburhús byggð fyrir þennan tíma uppfylla því ekki nútímakröfur um brunavarnir, sem íbúar eru oft ekki meðvitaðir um.

Mikilvægt er að kynna sér helstu þætti sem snúa að brunavörnum þar með talið brunahólfun, flóttaleiðir og efnisval.

Nauðsynlegt er að öll heimili og íverustaðir séu með góðar brunavarnir. Meðal annars skulu reykskynjarar vera í öllum rýmum, slökkvitæki við flóttaleiðir og eldvarnarteppi í eldhúsi.

Ýmsar spurningar geta vaknað hjá eigendum og íbúum timburhúsa. Þá er nauðsynlegt að kynna sér málin til að tryggja eigið öryggi og annarra. Fyrir frekari ráðgjöf er gott að hafa samband við iðnmeistara sem geta leiðbeint viðkomandi í þessum málum.

Huga þarf að eftirfarandi þættir séu í lagi:

Ástand raflagna

Ef raflögnum húsa er ábótavant eykur það verulega hættu á að það kvikni í. Með vaxandi notkun rafmagnstækja er brýnt að horfa á þennan þátt.

Eldri rafmagnslagnir þola ekki mikið álag en slíkt getur valdið hitamyndun. Einnig getur straumur lekið út og kveikt í.

Mikilvægt er að skoða hvort raflagnir húsa uppfylli almennt gildandi kröfur varðandi efni og frágang.

Hvernig er staðan hjá þér?

Rafmagnstafla

Í eldri timburhúsum geta verið rafmagnstöflur úr timbri. Timbur er brennanlegt efni sem þornar yfir tíma og verður þannig enn brennanlegra. Margir áratugir eru síðan rafmagnstöflur úr tré voru síðast settar upp. Þær eru úr sér gengnar og úreltar og ekki í samræmi við núgildandi reglur. Rafmagnstöflur úr tré eru ekki leyfðar í nýjum og endurnýjuðum húsum.

Mikill rafstraumur fer um rafmagnstöflur, um þær fer allt rafmagn hússins og þar með talin hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla.

Hvernig er staðan hjá þér?

Ef svo er þá er nauðsynlegt að endurnýja hana

Fjöltengi og hleðsla raftækja

Oft eru orsakavaldar í rafmagnsbrunum raftæki sem eru í hleðslu hverju sinni. Hleðsla raftækja, þar með talin hlaupahjól, þarf að eiga sér stað með öruggum hætti. Það er hættulegt að ofhlaða innstungur, til dæmis með því að tengja of mörg raftæki í eina innstungu með hjálp fjöltengis.

Brunar tengdir hlaupahjólum, símum og öðrum snjalltækjum í hleðslu hafa aukist til muna. Hafa þarf í huga hvað hámarks straumálag innstungunnar eða tengilsins er.

Hvernig er staðan hjá þér?

Efnisval innandyra

Veggir og loft innandyra í húsum hafa áhrif á útbreiðslu elds. Þar hefur helst áhrif hvort yfirborð veggja og lofta sé brennanlegt.

Í eldri timburhúsum er algengt að klæðningar séu úr brennanlegum efnum. Þessi efni flýta fyrir útbreiðslu elds í húsum og geta teppt flóttaleiðir.

Brennanleg yfirborð eru meðal annars spónarplötur, krossviður, panelklæðning og dúkur.

Brennanleg einangrun er meðal annars frauðplast, hálmur, dagblöð, sag og annað óþekkt efni.

Í byggingarreglugerð má finna upplýsingar um varnir gegn útbreiðslu elds og reyks. Þar segir meðal annars um byggingarefni í veggjum, lofti og föstum innrétt­ingum að kröfur til yfirborðsflokkunar byggingarefna skulu taka mið af þeirri hættu sem þau geta skapað vegna reykmyndunar og útbreiðslu elds. 

Brunarhólfun

Brunahólfun felur í sér sérstaka uppbyggingu veggja sem tryggir að eldur og reykur dreifist ekki milli hólfa eða rýma. Hurðir og önnur op í þeim veggjum þurfa einnig að hafa brunahólfandi eiginleika.

Hurðir eru stór þáttur í möguleikum á dreifingu elds milli rýma. Af þeim sökum er mikilvægt að þær hafa sambærilega brunahólfandi eiginleika og veggurinn sem þær eru staðsettar í.

Í byggingarreglugerð segir að hægt sé að takmarka útbreiðslu elds með því að skipta byggingum niður í hluta sem kallast brunahólf. Þessi brunahólf eru aðskilin hvert frá öðru með brunahólfandi veggjum og hæðaskilum byggðum úr brunaþolnum byggingarhlutum sem hindra útbreiðslu elds, hita og reyks á milli hólfa. 

Brunahólf geta ýmist verið eitt rými eða samsett úr mörgum rýmum sem tilheyra einu og sama brunahólfinu. Nánar um brunahólfun í  9.6.11. gr.  byggingarreglugerðar.

Hvernig er staðan hjá þér?

Flóttaleiðir

Flóttaleiðir eru einn mikilvægasti þáttur brunavarna þegar kemur að öryggi fólks.

Almenna reglan er sú að allir eigi kost á að minnsta kosti tveimur leiðum út úr hverri íbúð, það er aðalinngangur og svo varaleið.

Í byggingarreglugerð segir um flóttaleiðir að frá hverju rými byggingar þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skulu vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða.

Flóttaleiðir skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga.

Hvernig er staðan hjá þér?